Fréttir

Prófunum á holum Reykhóla lokið

Sums staðar komu í ljós göt á leiðslum
Sums staðar komu í ljós göt á leiðslum
1 af 6

Íbúar á Reykhólum gætu hafa tekið eftir óvenju miklum gufustrókum á nýjum og gömlum stöðum í febrúar. Gengið var í það milli 13. og 15. febrúar að mæla allar holur á Reykhólum.

Þetta var loksins hægt vegna þess að búið er að ganga frá öllum holutoppum þannig að hægt er að mæla þrýsting, rennsli og hitastig. Það var Orkubú Vestfjarða sem tók að sér verkefni fyrir Þörungaverksmiðjuna við að laga holutoppana svo þessar mælingar gætu loksins átt sér stað. Með breytingunni geta bæði Þörungaverksmiðjan og Orkubúið sent regluglega allar umbeðnar upplýsingar um ástand hola til Orkustofnunar. Slík upplýsingagjöf er skylda þeirra sem hafa vinnsluleyfi á jarðvarma. Þess má geta að Orkubú Vestfjarða, Saltverksmiðjan, Þörungaverksmiðjan og Reykhólahreppur standa nú saman um það að koma skikki á allar holur, lagnir, dælur, skúra og annað sem tilheyrir notkun á jarðvarmanum. Þessi samvinna gengur undir nafninu Varmabú Reykhóla. Markmiðið er að styðja við betri nýtingu á auðlindinni og örugga umgengni.

Reynt er að byggja á reynslu og þekkingu heimamanna um hverina, borholur og sögulega þróun alls kerfisins. 

Það voru þó Íslenskar Orkurannsóknir, ISOR sem komu með allan tækjabúnað sem þarf til mælinganna og stýrði verkinu. Rennslið var stoppað úr hverri holunni á fætur annarri og þær mældar í bak og fyrir. Heimamenn bæði frá Orkubúinu og Þörungaverksmiðjunni, auk gröfumanna og vinnumanna af ýmsum stigum sáu til þess að allt færi fram slysalaust.

Nú taka við útreikningar og skýrsluskrif. Vegin verða nokkur mikilvæg atriði sem geta skorið úr um það hvort holurnar hafi verið nýttar á sjálfbæran hátt til þessa.  Einnig metið hvort óhætt væri að tengja nýjustu holluna við Kötlulaug við kerfið. H'un er nú svo sem ekki glæný, borðu 1996 og er í eigu Orkubúsins. Það er þó óþarfi að bæta við vatni þar til eftirspurn eftir þessu heita vatni eykst.