Fréttir

Stofnun Þörungamiðstöðvar Íslands

Fv: María Maack sjávarlíffræðingur, Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri, Oddur Már Gunnarsson, forstjóri MATÍS og Anna Kristín Daníelsdóttir, aðstoðarforstjóri MATÍS.
Fv: María Maack sjávarlíffræðingur, Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri, Oddur Már Gunnarsson, forstjóri MATÍS og Anna Kristín Daníelsdóttir, aðstoðarforstjóri MATÍS.
1 af 2

Þann 2. febrúar 2022 undirrituðu Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps og Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. stofnsamning um Þörungamiðstöð Íslands og lögðu fé í fyrirtækið til að auðvelda gangsetningu og uppbyggingu rannsókna- og þróunarsetursins á Reykhólum.

Þann 4. febrúar 2020 voru síðan haldnir tveir mikilvægir fundir með forstöðumönnum virtra rannsóknastofnana. Oddi Má Gunnarssyni, forstjóra MATIS hf. og Þorsteini Sigurðssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Haf- og vatnarannsókna- og ráðgjafarstofnunar. Í báðum tilvikum var sett fram viljayfirlýsing um samstarf um rannsóknir og vöktun þörunga í lífríki Breiðafjarðar ásamt því að nýta niðurstöður rannsókna til að auðvelda fjölbreytni afurða er markmið í samvinnulýsingunni. Tilgangur samstarfsins er að auka þekkingu, fjölbreytni starfa og verðmætasköpun, einkum úr þangi og þara, og sýna með rannsóknum að þessi sjávarauðlind sé nýtt á sjálfbæran hátt. Samningur þessi mun eingöngu byggjast á samstarfi í fullfjármögnuðum rannsóknarverkefnum og skuldbindur viljayfirlýsingin hvorki fyrirtækin né stofnanirnar fjárhagslega.

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir mun móta starfsemi miðstöðvarinnar. Hólmfríður leiddi og mótaði rannsóknartengda og virðisaukandi framleiðslu fyrir sjávarútveg í Vestmannaeyjum og gæðastjórnun og fullnýtingu á hráefni í Verinu á Sauðárkróki þar sem rannsóknastofa Matís var mikilvæg. Í kjölfarið var sprotafyrirtækibu Protis hleypt af stokkunum. Hólmfríður fann upp Protis fiskpróteinframleiðsluna. Protis var fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að setja upp ferli fyrir þurrkað fiskprótein og kollagen sem er unnið úr aukaafurðum fiskvinnslu og selt undir vörumerkinu Protis Fish Protein.

Sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnun hafa rannsakað grunnsævi Breiðafjarðar og gefið út skýrslur um ástand, vöxt og þéttleika þangs og þara. Karl Gunnarsson er tvímælalaust frumkvöðull þeirra rannsókna en nú eru kynslóðaskipti á ýmsum sviðum hjá stofnuninni. Hafrannsóknastofnun gaf út fyrstu ráðgjöfina um Ascophyllum (klóþang) á Breiðafirði árið 2018 og byggir hún á rannsóknarniðurstöðum á heildarlífmassa fjarðarins. Í Breiðafirði er um fjórðungur strandlengju Íslands og vaxtarskilyrðin einstök. Stofnunin fagnar tækifæri til samstarfs um rannsóknir á þessari auðlind þar sem þang og þari vekja í auknum mæli athygli vegna fjölbreyttra nýtingarmöguleika.

Þörungaverksmiðjan hf. hefur stutt þörungarannsóknir með því að útvega hráefni til þróunartilrauna og prófana, báta og farartæki, reyndan sæfara og öryggisbúnað. Mikil þekking og reynsla hefur fengist á eðli hráefnisins, þurrkun og mölun. Þörungaverksmiðjan hf. tekur þátt í stofnun Þörungaseturs Íslands til að efla enn frekar rannsóknir á auðlindinni og sjá nýjar vinnsluaðferðir til að breikka vöruúrval og auka verðmæti afurða.