Vinnsluferli

Klóþang í fjöru
Klóþang í fjöru

Vinnsluferlið i Þörungaverksmiðjunnar nýtir sér gott aðgengi að fersku hráefni úr Breiðafirði og mildrar þurrkunaraðferðar með jarðvarma á Reykhólum. Aðstæður við Breiðafjörð eru einstakar þar sem fjörur eru stórar vegna grunnsævis, eyja og skerja. Þar er mikill munur á flóði og fjöru við harðar klettóttar strendur. Þang er sótt ofarlega í fjörur strandlengjunnar og við eyjar, hólma og sker. Þarinn er skorinn utar í dýpri sjó. Skilyrði fyrir vöxt sjávargróðurs eru sérlega góð. Til þurrkunar er notað loft sem er hitað með um 110°C heitu vatni úr borholum sem eru innan þorpsmarkanna.

Klóþangs (Ascophyllum nodosum) er aflað með þangslátturvélum. Hrossaþara (Laminaria digitata)er aflað með greiðu á sleða sem öflunarskipið Grettir dregur með botni. Greiðan virkar þannig að elstu stönglar þarans standast álagið og yngstu stönglarnir eru svo mjúkir að þeir sleppa í gegn. Þannig er aldrei sleginn allur sjávargróðurinn á hverjum bletti heldur grisjað.

Hráefnið er þurrkað í Þörungaverksmiðjunni á færibandi við hitastig sem tryggir varðveislu virkra efna. Þurrkunaraðferðin er mild miðað við þangþurrkun við olíu og kolakatla eins og víðast er gert annars staðar. Of hátt hitastig gerir þörungamjölið dekkra, eiginlega sviðið. Þurrktími getur verið breytilegur eftir árstíð og tegund hráefnis, en er að öllu jöfnu um 2-3 klst. Eftir þurrkun eru þörungarnir malaðar og mjölið siktað í nokkrar kornastærðir. Því er ýmist pakkað í 25kg poka eða 1.000 kg stórsekki eða skipað út sem lausavöru. Turnarnir geyma því birgðir af mjöli. 

Þörungaverksmiðjan framleiðir lífrænt vottað hágæða þörungamjöl sem er í miklum metum víða um heim. Það er vottunarstofan Tún sem sér um vottunina fyrir íslenskan markað en QAI og OTCO votta samkvæmt N-Amerískum stöðlum (sjá afurðir og vottanir). Afurðir verksmiðjunnar eru til mjög margvíslegra nota. Það er notað sem fæðu- og fóðurbætiefni, sem áburður á gróður og í ýmsar húð- og snyrtivörur. Alginat eða fjölsykrur, eru unnar úr mjölinu þegar því hefur verið blandað við ýmsar aðrar tegundir, og fer það til enn fjölbreyttari nota í framleiðslu á matvælum, snyrtivörum, drykkjarvörum og til lyfjaframleiðslu.