Fréttir

Undirrituð viljayfirlýsing

Samkvæmt yfirlýsingunni sem undirrituð var fyrir helgi lýsa báðir aðilar yfir áhuga á samtarfi í tengslum við uppbyggingu og starfsemi rannsókna- og þekkingarmiðstöðvar um þörunga á Reykhólum en tilgangur samstarfsins er m.a. að auka þekkingu á umhverfi þörunga með vöktun og rannsóknum ásamt því að skapa frekari verðmæti úr þörungum og efla atvinnu tengda þeim. 

Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á að vinna með samfélagi og atvinnulífi og innan skólans er lagt kapp á að skapa gott umhverfi fyrir rannsóknir og hagnýtingu þeirra í þágu samfélags og atvinnulífs. Með viljayfirlýsingunni vill skólinn leggja sitt af mörkum til verkefna sem miða að því að afla nýrrar þekkingar sem tengist ræktun, vinnslu og hvers kyns nýtingu þörunga en innan skólans hafa farið fram ýmiss konar rannsóknir sem tengjast þessum sjávarlífverum og nýtingu þeirra. Samstarfið með Þörungamiðstöð Íslands fellur afar vel að stefnu skólans, HÍ26, sem kveður m.a. á um hlutverk HÍ í þágu þróunar samfélaga og þekkingarsköpunar en nánari útfærsla á samstarfinu verður staðfest síðar með formlegum samningi fyrir hvert verkefni. 

Á myndinni eru Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Sigurður M. Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, María Maack, ráðgjafi um sjálfbærni hjá Þörungaverksmiðjunni, Anna Þóra Hrólfsdóttir, doktorsnemi í matvælafræði, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra HÍ. Sitjandi eru Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf., og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. MYND/Gunnar Sverrisson