Fréttir

Gestaheimsóknir ekki í boði, en skoðið Hlunnindasýninguna

Uppskeru safnað
Uppskeru safnað
1 af 3

Kæru landar á ferðalagi. Í Þörungaverksmiðjunni er lokað fyrir gestaheimsóknir. Það er hættulegt að fara um hafnir þar sem fluttir eru tugir tonna af þangi frá borði í skipum og upp á drátarvélavagn, sjóðandi hitt hveravatn flæðir um rör og færibönd og gámaflutningabílar koma til að sækja farma. En á Reykhólum skammt frá búðinni /Restaurant 380 er hins vegar Hlunnindasýningin. Þar eru sýndir þörungar úr Breiðafirði, mjöl sem er útflutningsvara Þörungaverksmiðjunnar og ýmsir hlutir sem gerðir eru úr þörungum. Nýtið ykkur þetta og spyrjið út í Þörungaverksmiðjuna þar.  


Grettir kominn, þangvertíð hafin

Grettir hlaðinn
Grettir hlaðinn
1 af 5

Spenna, tilhlökkun, gleði og kuldahrollur fór gegnum fólk sem mætti niðri á Reykhólahöfn á summudeginum 10.maí.  Grettir var loksins að leggjast að með fyrstu þanguppskeru þessa vors. Skipið hefur farið i gagngera viðgerð og endurbætur. Beðið var með óþreyju eftir nýmáluðu skipi og ekki síður nýjum skipstjóra.


Meira

Þangvertíð að hefjast

Guðlaugur hefur staðið í ströngu með að flytja dekkin frá sorpsvæðinu niður á höfn.
Guðlaugur hefur staðið í ströngu með að flytja dekkin frá sorpsvæðinu niður á höfn.
1 af 3

Sem betur fer hefur ekki greinst smit af COVIT hjá verksmiðjufólkinu né öðrum sveitungum. Hjá Þörungaverksmiðjunni hafa allir húnar og aðrir fletir í almannarými verið sprittaðir tvisvar á dag og hópurinn borðar og fær sér kaffi í uppskiptum hópum. 

Á sama tíma er Grettir í yfirhalningu í slippi. Sláttuprammarnir hafa nú þegar verið settir á flot, nýmálaðir og viðgerðir. Tíminn hefur verið notaður vel í gagngeran þrifnað, endurnýjun pípa og færibönd í sílóum.

Á sama tíma má greina frá ánægjulegum tíðindum: Verið er að breikka og dýpka rennuna inn að höfninni og Vegagerðin ætti einnig á að dýpka höfnina við legukantinn. Sveitarfélagið er á sama tíma að endurnýja stóru hlífðardekkin svo að bátarnir skemmist síður í hvassviðri. Fanney hefur að sjálfsögðu lokið við viðgerðir á pokum og endurnýtingu á lásum og húsið við sílóin eru í fínu standi.  

Sláttumenn eru mættir á svæðið og hafa flikkað upp á bátana sína. 

Við vonum að innsiglingin verði öruggari og betri í framhaldinu. Gleðilegt sumar kæru félagar og sveitungar.  


Thorverk var tilnefnt

Myndin er af forsíðu skýrslu Félags sameinuðu þjóðanna og sýnir heimsmarkmiðin
Myndin er af forsíðu skýrslu Félags sameinuðu þjóðanna og sýnir heimsmarkmiðin

Það er mikil ánægja okkar að Thorverk hefur verið tilnefnt til Þekkingarverðlauna félags viðskipta og hagfræðinga. Eins og segir í bréfi frá Telmu Eir Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra, er tilefnið eftirfarandi: 

Íslensku þekkingarverðlaunin 2020 verða veitt því fyrirtæki sem að mati dómnefndar hefur skarað fram úr á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og þegar kemur að ábyrgri og áhrifaríkri stefnu varðandi umhverfismál.

Sjáum hvað setur, en forseti Íslands afhendir verðlaunin síðar. Einkum er horft til þess hvernig fyrirtæki reyna að nálgast 17 sjáfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna en um þau má lesa á íslensku Wikipedíu eða skýrslu SÞ


Öskudagur 2020

elstu bekkingarnir
elstu bekkingarnir
1 af 3

Eins og venjan er á Íslandi í byrjun páskafösta eða lönguföstu banka börn uppá  heimili og fyrirtæki. Krakkar eru klæddir í búninga, sýna sig og safna sælgæti með því að syngja. Rætur þessarar venju eru nokkuð fornar. Vikan byrjar á mánudegi - bolludegi. Þá bjóða heimili og bakarí upp á alls konar bollur. Fiskibollur og kjötbollur eru aðalrétturinn en með kaffinu og í eftirrétti eru hafðar  sætar bollur fylltar með rjóma og sultu. Svo kemur þriðjudagurinn, sprengidagur, - ofeldisdagur - þegar maturinn á að vera feitur og fyllandi, venjulega í formi baunasúpu sem soðin er á söltu lambakjöti eða hrossakjöti og neytt í ofurmagni (minnir auðvitað á mardi gras). Að lokum á miðvikudaginn, sem nefnist þá öskudagur, ráfa krakkarnir á milli húsa og syngja. Það er gert með ýmsu móti á mismunandi stöðum og hefur á síðustu áratugum breyst frá því að hengja litla óvelkomna heimagerða taupoka á fólk til þess að safna nammi. Nánari upplýsingar um þessar hefðir er að finna á íslensku á íslensku wikipediu . Í það minnsta þakkar Þörungaverksmiðjan fyrir heimsóknina og vonast til að sjá ykkur á næsta ári. - Með fjölbreyttan og fallegan söng. 


Þetta verður endurtekið og þá með sögulegu ívafi

Mikið var gaman að hafa opið hús. Það skrifuðu sig 38 í gestabók. Eldri borgarar, heiðursborgarar, börn og nýbúar, glæsileg mæting. Ætli 38 þyki ekki harla gott mitt í jólaönnum og frosthörkum? Það var mikið spurt og eldri starfsmenn höfðu frá mörgu að segja. Halldóra Játvarðardóttir sagðist hafa sagt sínum leiðsögumanni margt um það liðna á leið í gegnum verksmiðjuna. Og henni kom einmitt á óvart hvað margt er öðruvísi en var, þrátt fyrir að starfsemin sé að kjarna til nákvæmlega sú sama. Börnin fengu líka fínar sögur og margt að skoða. 

Það komu bændur og nýir íbúar í Reykhólahreppi. Það komu íbúar sem voru gagnrýnir og aðrir sem voru hæstánægðir. Alla vegana var mikið skrafað á kaffistofnunni. Gestir dreifðust vel yfir daginn og farnir voru könnunarleiðangrar um alla króka. Þörungaverksmiðjan þakkar innilega öllum þeim sem sáu sér fært að líta inn. 

Maddi mætti snemma og sagði frá samskiptum sínum við Sigurð Hallsson og erlendu þörungastúlkuna sem hann kom með til að spegúlera í sjávargróðrinum. Hvort hún var júgóslavnesk eða frönsk, það komst ekki alveg á hreint. Inda mundi líka eftir tilraunum til þurrkunar við gaflinn á sundlaugarhúsinu. Gummi á Grund rifjaði upp fyrstu sprengingar í Karlsey í fylgd starfsmanna Hafrannsóknarstofnunar. Og um alls kyns annars konar þurrkun sem ollu skitu í frægum hundi. Þetta eru óborganlegar sögur. Og kannski eru til einhvers staðar myndir frá upphafsárum Þörungaverksmiðjunnar. 

Hér með er tilkynnt að þetta verður sannarlega endurtekið. Og það á betri árstíma þegar dagur er lengri og betur stendur á. Næsta skipti verður helgað sögu Þörungaverksmiðjunnar-Þörungavinnslunnar og rekstri Heimamanna. Ef nú íbúar og góðir grannar eiga sögulegt myndefni af starfsemi og vinnandi fólki, tækjum og öðru þörungatengdu í fórum sínum frá tímabilinu 1958-2019, eru þeir hér með sannarlega beðnir um að koma þeim til Finns, nú eða Maríu, sem reyndar hafði veg og vanda að þessu fyrsta opna húsi í langan tíma. Gleðileg þarajól.  


Nefndu nafn mitt ef þér liggur lítið við

Guðmundur Ólafsson
Guðmundur Ólafsson
1 af 3

Þetta sagði Halldór Laxness og meinti að hann gæti gert mönnum góða greiða þegar mikið lægi við. Í óveðrinu í vikunni varð rafmagnslaust á Reykhólum. Í sumar var sett upp viðbótar-ljósavél til að styðja við þá gömlu hjá Orkubúinu. Guðmundur á Grund hafði verið á sólarhringsvakt þegar heldur voru farnar að minnka olíubirgðirnar. Bræðurnir Bolli og Óli Smárasynir voru á fartinni en Bjössi Sam sótti um leyfi hjá Þörungaverksmiðjunni til að deila birgðum af dísli svo reka mætti varaaflstöðvarnar lengur. Það fór svo að þeir Bjössi voru frá hádegi til miðnættis að ferja olíu á milli. Eitthvað var um bilanir í varakerfinu en að lokum komst allt af stað. Þetta þýddi að dælur virkuðu til að koma hitaveitunni í gang á Reykhólum þó að sums staðar í sveitunum væri orðið kalt í húsum. Þannig er gott að eiga góða að, þá sem vilja lána og þá sem bregðast við þegar lítið liggur við. 


Fjallað um þörunga í Iceland review

Nokkrar greinar í Iceland Reveiw, sem er tímarit á ensku um íslensk málefni, fjalla um þörunga. Þarna er lýst íslenskri hollustu og hvernig söl, sem eru handtínd, rata á veisluborð í Danmörku og Englandi. Einnig er viðtal við Eydísi sem heldur utan um húðvöruframleiðandann Zeto. Keresis sem nýtir trefjar innan úr fiskroði til að halda saman sárum er í annarri grein, en það er einnig vestfirskt fyrirtæki. Nokkrar myndir fylgja greininni og er ein af Þörungaverksmiðjunni.  


Opið hús á föstudag 13. desember milli 13 og 17.

Haustþörungar
Haustþörungar

Það hefur margt breyst hjá Þörungaverksmiðjunni Thorverk á undanförnum árum. Núna viljum við sýna ykkur innfyrir. Þann 13. desmeber, núna á föstudag, verður opið hús. Komið og sjáið nýju blásarana, birgðirnar, breytta eldhúsið, kynninguna í kaffistofunni og hittið starfsfólkið sem getur sýnt ykkur í alla króka og kima. Verið velkomin, heitt á könnunni, gos fyrir börnin og glaðningur, ef allt skilar sér með póstinum. Opið milli kl 13 og 17.  


Hluthafafundur - breytingar á samþykktum félagsins.

Stjórn Þörungaverksmiðjunnar hf. hefur boðað til almenns hluthafafundar í félaginu miðvikudaginn 16. október 2019. Öllum hluthöfum hefur verið sent bréf vegna þessa. Eitt mál er á dagskrá: Að breyta samþykktum félagsins.

Stungið er upp á því að bæta í samþykktir félagsins ákvæði um forkaupsrétt til kaupa á eignarhlutum í félaginu sem eru til sölu:

Annars vegar skuli stjórn félagsins, fyrir hönd félagsins sjálfs, eiga forkaupsrétt á hlutum sem eru til sölu. Hins vegar, ef stjórnin afþakkar kaupin, skulu hluthafar eiga forkaupsrétt á þeim hlutum sem eru til sölu í hlutfalli við hlutafjáreign sína.

Fundurinn verður miðvikudaginn 16. október 2019, kl 11 árdegis á skrifstofu félagsins í Karlsey, 380 Reykhólum. Allir hluthafar eða fulltrúar þeirra eru velkomnir.